Innlent

Áhugi á fríverslun við Indland

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og dr. Abdul Kamal Indlandsforseti funduðu í gær í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Á fundinum ræddu þeir um nauðsyn þess að finna leiðir til að auka viðskipti milli landanna og minntist Halldór á að áhugi væri fyrir því hér á landi að koma á fríverslun við Indland. Einnig var rætt um möguleg samstarfsverkefni í tengslum við lyfjaiðnað og sjávarútveg. Þá ræddu þeir um aukið samstarf milli vísindamanna, einkum jarðvísindamanna. Alþjóðamál bar einnig á góma á fundinum. Indverjar hafa ásamt fleiri ríkjum lagt fram tillögur um endurskoðun á starfsháttum og samsetningu öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Á fundinum ítrekaði Halldór stuðning íslenskra stjórnvalda við þessar tillögur. Halldór og dr. Kamal ræddu ennfremur um Alþjóðaviðskiptamálastofnunina og mikilvægi þess að yfirstandandi samningslotu lyki sem fyrst til að liðka fyrir viðskiptum milli aðildarríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×