Erlent

Stefnir í að Hollendingar hafni

Skoðanakannanir benda til að hollenska þjóðin feti í fótspor þeirrar frönsku og hafni stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Talið er að allt að 60 prósent Hollendinga segi „nei takk“ við stjórnarskránni. Hvort það verði banabiti stjórnarskrársáttmálans að önnur stofnþjóð Evrópusambandsins hafni henni kemur væntanlega í ljós á leiðtogafundi sambandsþjóðanna í júní þar sem næstu skref verða rædd og í ljós kemur hvort leiðtogarnir lumi á „plani b“. Ástæður þess að Hollendingar eru stjórnarskránni andsnúnir eru meðal annars þær að óttast er að þjóðin hverfi inn í gímald Evrópusambandsstofnana í Brussel þar sem Þýskaland, Frakkland og Bretland ráða lögum og lofum. Aðrir segja að stjórnarskráin geri út af við frjálslyndisstefnu hollenskrar löggjafar sem ekki amast út í maríjananotkun, vændi og líknardráp. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ekki bindandi en stjórnmálaleiðtogar hafa sagt að þeir uni niðurstöðu hennar ef meira en þrjátíu prósent atkvæðisbærra manna taka þátt í henni. Það takmark náðist stuttu eftir hádegi. Búist er við fyrstu útgönguspám nú klukkan sjö að íslenskum tíma þegar kjörstöðum verður lokað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×