Innlent

Alfreð vill flugvöllinn burt

Alfreð Þorsteinsson, Framsóknarflokki og borgarfulltrúi R-listans, telur tímabært að höggva á hnútinn um Reykjavíkurflugvöll og Vatnsmýrina. Hann vill reisa nýjan flugvöll á uppfyllingu við svonefnd Löngusker í Skerjafirði og segir það ekki kostnaðarsamara en að reisa orkuver á Hellisheiði. Alfreð telur ástæðu til að skoða nánar tillögur Sjálfstæðisflokksins um byggð á eyjunum við sundin norðan Reykjavíkur. "Hins vegar er alveg ljóst að þessi mál eru ekki næsta stóra viðfangsefnið á sviði skipulagsmála í Reykjavík. Þar hlýtur Vatnsmýrin að koma á undan. Hvorki Sjálfstæðiflokkurinn né R-listinn geta skotið sér undan því að taka afstöðu um framtíð Reykjavíkurflugvallar." Alfreð segir ljóst að aldrei muni nást sátt um að Reykjavíkurflugvöllur verði í Vatnsmýrinni til frambúðar, hvorki í núverandi mynd né smækkaðri. "Jafnljóst er að það er skylda Reykjavíkur sem höfuðborgar að greiðar flugsamgöngur séu í næsta nágrenni borgarinnar og þá er ég ekki að tala um Keflavíkurflugvöll heldur flugvöll sem staðsettur yrði nær höfuðborginni. Kostnaður við nýjan flugvöll ásamt landfyllingu og vegagerð gæti numið 10-20 milljörðum króna, en á móti koma tekjur af sölu lóða í Vatnsmýrinni langt umfram þennan kostnað," segir Alfreð. Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er ekki ný af nálinni, segir Alfreð og bendir á að framsóknarmenn hafi meðal annarra lagt fram hugmynd í þá veru í borgarstjórn fyrir um 30 árum. Einnig hafi Hrafn Gunnlaugsson gert henni skil í sjónvarpsmynd um framtíðarsýn sína um skipulag höfuðborgarinnar. "Þetta er einfaldlega skynsamlegt og arðsamt verkefni fyrir borgina og ríkið." Alfreð Þorsteinsson fjallar nánar um skipulagshugmyndir sínar, Sjálfstæðisflokkinn og fleira í viðtali við Fréttablaðið á morgun, laugardag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×