Erlent

Ný Marshall-áætlun fyrir Afríku

Fjármálaráðherra Bretlands kynnti í dag hugmyndir sínar um nýja Marshall-áætlun til þess að reisa Afríku úr öskustónni. Skiptar skoðanir eru um hugmyndir Breta. Með því sem Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, leggur til er að afskrifa allar skuldir Afríkuríkja við alþjóðlega sjóði og fjármálastofnanir eins og Alþjóðabankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Auk þess vill Brown afla fjár sérstaklega til þess að auka bein fjárframlög til Afríku. Þá vill ráðherrann afnema viðskiptahindranir sem gera Afríkuríkjum erfitt að selja framleiðslu sína í iðnríkjunum. Brown segir þetta hvorki rétta tímann fyrir kjarkleysi né ótta við að teygja sig of hátt. „Á þessu ári, ári leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna og þegar Bretland situr í forsæti G8-hópsins, gefst tækifæri til að snúa við örlögum heimsálfu og umbreyta lífi milljóna manna,“ sagði Brown á blaðamannafundi í dag. Búist er við að á fundi átta helstu iðnríkja heims, þ.e. G8-hópsins, í næsta mánuði verði samstaða um að auka aðstoð við Afríku. Hins vegar virðist sem hvert ríki um sig hafi eigin hugmyndir um hvernig eigi að standa að þeirri aðstoð. Frakkar hafa til dæmis lagt fram tillögu um að sérstakur skattur verði lagður á farþegaflug til þess að standa undir kostnaði við Afríkuhjálpina. Aðrir eru algerlega á móti þessu. George Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að hann sé fús til þess að taka þátt í aukinni aðstoð. Hann er hins vegar ekki hrifinn af hugmyndum Breta og vill að Bandaríkjamenn ráði því sjálfir hvernig að verður staðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×