Erlent

Abbas frestar kosningunum

Mikil spenna ríkir nú í herbúðum Palestínumanna eftir að Mahmoud Abbas forseti ákvað að fresta þingkosningum sem halda átti um miðjan næsta mánuð. Í yfirlýsingu um frestun kosninganna sagði Abbas að hún væri til þess að gefa tíma til að leysa deilur um breytingar á kosningalögunum. Hann gat ekkert um hvenær kosningarnar yrðu loks haldnar, sagði aðeins að um það yrði tilkynnt síðar. Hamas-samtökin eru ekki í neinum vafa um að þetta sé gert til höfuðs þeim. Samtökin hófu þátttöku í stjórnmálum á síðasta ári og hafa í bæjar- og sveitastjórnakosningum unnið marga sigra á hinni spilltu Fatah-hreyfingu Jassers Arafats. Hamas segja nú að Abbas hafi frestað kosningunum af ótta við að þau fengju of mörg þingsæti. Hamas eru margslungin samtök. Þau hafa verið atkvæðamest allra samtaka í hryðjuverkaárásum á Ísrael og það er markmið þeirra að eyða Ísraelsríki. En samtökin reka einnig skóla, sjúkrahús og félagsmiðstöðvar á svæðum þar sem fátækt er mikil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×