Innlent

Ráðherra með rangt mál

"Það er fjarri lagi að ráðherra fari þarna með rétt mál og nægir að benda á þorskveiðar í Barentshafinu því til sönnunar," segir Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. Hann gagnrýnir harðlega það sem Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, mælti í Sjómannadagsræðu sinni í gær um að árangur Íslendinga varðandi stækkun þorskstofnsins væri ásættanlegur miðað við aðra. Guðjón furðar sig á þessum ummælum enda sé í dag veitt jafnmikið magn þorsks við Íslandsstrendur og gert var þegar kvótakerfið var fyrst sett á. "Þannig sér hver maður að árangurinn er enginn og þaðan af síður ásættanlegur. Ég veit ekki betur en að þorskstofninn hafi farið upp í Barentshafi þrátt fyrir að þar hafi verið farið verulega fram úr aflaheimildum árum saman og jafnvel áratugum. Og ástandið á þorskstofninum þar núna er betra en það hefur verið um langa hríð." Guðjón segir þetta renna enn frekari stoðum undir að viðurkenna að enginn árangur hafi náðst með því að kvótasetja þorskafla. "Það má ekki gleyma að kvótakerfið var upphaflega sett á eingöngu vegna aflabrests í þorskinum 1983. Þá var svartsýnisspá vegna þorskstofnsins og 22 árum síðar er nákvæmlega sama staða uppi. Það hlýtur að segja mönnum eitthvað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×