Innlent

Láglaunastörf fara annað

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra kveðst ekki sjá hvernig útfæra eigi hugmyndir þær sem Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður sjávarútvegsnefndar, setti fram í ræðu á Patreksfirði á sjómannadaginn. Kristinn mælti með því að 20 þúsund tonna aflaheimildir yrðu fluttar til staða sem ekki nytu stóriðjuuppbyggingarinnar. "Við búum hér við ákveðið fiskveiðistjórnunarkerfi og allir vita hvernig það virkar. Það er ekki verið að byggja upp stóriðju nema á tveimur stöðum á landinu: á Reyðarfirði og í grennd við Akranes." Fram hefur komið að hátt gengi krónunnar veldur útflutningsgreinunum erfiðleikum, meðal annars í fiskvinnslu á Bíldudal og hjá Skinnaiðnaði á Akureyri. "Að því er varðar skinnaiðnaðinn er þetta ekki nýtt. Greinin hefur átt undir högg að sækja meðal annars vegna þess að vinnulaunin eru lægri í öðrum löndum. Greinar sem eiga erfiðast uppdráttar verða undir en í stað láglaunastarfa koma betur launuð störf. Þetta á ekki aðeins við um Ísland heldur allt alþjóðasamfélagið. Störf hafa verið að færarst héðan í fataiðnaði, sjávarútvegi og fleiri greinum, meðal annars til Kína. Þegar til lengri tíma er litið skiptir höfuðmáli að við stöndum okkur í alþjóðlegri samkeppni og ég tel að við séum að gera það," segir forsætisráðherra. Verðbólguþrýstinginn og hátt gengi krónunnar hefur verið rakið til stóriðjuframkvæmda og spennu á húsnæðismarkaði. Halldór segir að verðbólga mælist varla sé húsnæðisliðurinn dreginn frá. "Vísbendingar eru um að úr þeirri spennu sé að draga. Framkvæmdir ríkisins eru 20 prósentum minni árið 2005 og 2006 en árin næst á undan og þannig sýnir ríkissjóður mikið aðhald. Svo virðist sem framkvæmdir hjá stærri sveitarfélögunum og ástandið á húsnæðismarkaði séu aðalástæðurnar fyrir spennunni." "Ég tel að uppbyggingin í stóriðju sé mikilvæg. Margar hliðargreinar í hátækni hafa stuðning af stóriðjuframkvæmdum. Þetta kemur mjög skýrt fram hjá öllum sem starfa í slíkum hátæknigreinum," segir Halldór Ásgrímsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×