Innlent

Full grein gerð fyrir lekanum

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra vill að breska ríkisstjórnin geri fulla grein fyrir lekanum sem varð í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Umhverfisráðherra skrifaði Margaret Beckett, hinni bresku starfsystur sinni, bréf vegna þessa. Þar er gerð krafa um að bresk stjórnvöld upplýsi hvernig og hvers vegna lekinn varð, og einnig til hvaða aðgerða bresk stjórnvöld ætli að grípa til að tryggja öryggi stöðvarinnar í framtíðinni. Rannsóknir hafa leitt í ljós að lekinn, sem uppgötvaðist í apríl, hafi orðið í ágúst í fyrra. Í bréfinu er lög áhersla á hversu alvarlegt málið sé og spurningar um rekstraröryggi stöðvarinnar hafi vaknað og að leki frá henni geti haft geigvænlegar afleiðingar fyrir íbúa norðurslóða. Umhverfisráðherra ítrekaði einnig í bréfinu kröfur íslenskra stjórnvalda um að tryggt verði að mengun frá Sellafield verði hverfandi, og ef það sé ekki hægt eru bresk stjórnvöld alvarlega hvött til að íhuga lokun stöðvarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×