Innlent

Andstaða við brottflutning vex

Andstaða við brottflutning gyðinga frá Gasasvæðinu fer vaxandi meðal almennings í Ísrael og palestínsk stjórnvöld gagnrýna hvernig að honum er staðið. Það eina sem Ariel Sharon virðist geta huggað sig við er að Hæstiréttur í Ísrael lagði blessun sína yfir fólksflutningana í dag. Með úrskurði Hæstaréttar var síðustu formlegu hindruninni rutt úr vegi svo áform Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, um að flytja landnema af Gasasvæðinu ættu að ná fram að ganga. Þar búa níu þúsund gyðingar innan um eina og hálfa milljón Palestínumanna en landnemabyggðirnar hafa verið helsta ágreiningsefni Palestínumanna og Ísraela. Fólkið verður m.a. flutt til sjávarbyggðar í Nitz-anim og í dag voru menn í óða önn við að reisa hin nýju heimkynni. Fyrir Hæstarétti var deilt um það hvort brotið væri á réttindum þeirra gyðinga sem verða hraktir af Gasasvæðinu þegar flutningarnir hefjast í ágúst næstkomandi. Aðeins einn af tólf dómurum taldi svo vera. Átök hafa blossað upp á Gasasvæðinu og Vesturbakkanum að undanförnu. Og ekki leit það friðvænlega út á Vesturbakkanum í dag þegar ísraelskum hermönnum lenti saman við Palestínumenn sem mótmæltu varnarmúr Ísraela á hermundu svæðinunum. Þó blæs ekki byrlega fyrir Sharon þessa dagana en úrskurður Hæstaréttar í dag kemur í kjölfar skoðanakannana sem sýna að stuðningur við flutningana minnkar stöðugt. Til að byrja með voru 70 prósent Ísraela þeim hlynntir en nú tæpur helmingur. Margir gyðingar álíta að svæðið tilheyri þeim, samkvæmt biblíulegum skilningi, og með brottflutningnum sé verið að umbuna palestínskum hryðjuvekramönnum. Ísraelska þingið verði því að hverfa frá áætlunum sínum. Og það er ekki bara heima fyrir sem Sharon sætir gagnrýni. Palestínsk stjórnvöld saka Ísraelsstjórn um að gefa ekki nægilegar upplýsingar um hvernig standa eigi að flutningunum og bæði Ísraelar og Palestínumenn óttast árásir herskárra Palestínumanna þegar dregur að tímamótunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×