Innlent

Hæfi Halldórs í rannsókn

"Það er verið að skoða þessi mál með tilliti til eignar forsætisráðherra, ættartengsla og þess hvernig þetta spilar saman við þá atburðarás sem átti sér stað," segir Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi. Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að rannsaka hvort Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra sem jafnframt á sæti í ráðherranefnd um einkavæðingu, hafi verið vanhæfur til að fjalla um söluna á Búnaðarbankanum vegna eignar ráðherrans og fjölskyldu hans í Skinney-Þinganesi. Aðspurður sagði Sigurður það fyrst og fremst umræðu á fundi fjárlaganefndar á miðvikudag sem hafi orðið til þess að ákveðið var að taka málið fyrir. "Það voru ákveðnir nefndarmenn sem voru að vekja athygli á málinu og að þetta væri eitthvað sem þyrfti að svara og fá nánari upplýsingar um. Nú er verið að afla upplýsinga og draga fram það sem telst nauðsynlegt um eignarhluti og það hvernig þetta tengist saman," sagði Sigurður. Hann sagðist ekki vita hversu langan tíma athugunin tæki né gat hann svarað því hvaða áhrif yrðu af því ef forsætisráðherra yrði talinn vanhæfur í málinu. Sigurður Líndal lagaprófessor segir að erfitt sé að sjá hvernig slíkt mál myndi þróast ef forsætisráðherra yrði talinn vanhæfur en hér væri fyrst og fremst verið að vísa til hæfisskilyrða stjórnsýslulaga. "Fræðilega séð gæti það leitt til vantrausts á ráðherra en það er Alþingis að ákvarða viðbrögð. En í raun er það þannig að hver sá sem teldi á sig hallað gæti höfðað mál til ógildingar sölunni. Ríkisendurskoðun er ekki dómstóll," segir Sigurður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×