Innlent

Málinu ekki lokið

"Stjórnarflokkunum verður varla að þeirri ósk sinni að málinu sé lokið," segir Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um sölu ríkisbankanna. "Auk meints vanhæfis ráðherrans í bankasölumálinu eru einnig mörg önnur veigamikil atriði í söluferlinu enn óupplýst," segir Jóhanna. "Stjórnarandstaðan hlýtur að leita allra leiða til að fá málið upplýst. Ekki bara um meint vanhæfi forætisráðherra heldur málið í heild sinni. Fyrsta skrefið í því máli er að fá óvilhalla aðila til að vinna álitsgerð um meinta hagsmunaárekstra og vanhæfi ráðherra," segir hún. Hún bendir á að fimm hópar fjárfesta buðu í söluna á bönkunum og einhverjir þeirra sem var hafnað gætu leitað til dómsstóla til að fá úr því skorið hvort hagsmunaárekstrar hafi haft áhrif á ákvörðun um það hverjir fengu bankana. "Aðalatriði er að öll efnisatriði málsins verði upplýst. Það er grundvallaratriði til að hægt sé að treysta því að heiðarlegir stjórnsýsluhættir séu í heiðri hafðir hjá framkvæmdvaldinu. Í þessu máli er líka í húfi trúverðugleiki forsætisráðherra og þar verður að vera skýrt og klárt að hann hafi ekki verið flæktur í hagsmunaárekstra," segir Jóhanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×