Innlent

Framlög val fyrirtækja og banka

Það sem fyrirtæki leggja í samfélagsleg verkefni umfram skýrar kröfur og skyldur verður að vera á frjálsum grundvelli og ráðast af vilja einstakra fyrirtækja, segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni í gær að íslensk fyrirtæki gætu lagt meira af mörkum til að efla nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu. Þegar Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra ræddi um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í þjóðhátíðarávarpi sínu í gær duldist engum að honum finnst þau eiga að leggja meira af mörkum til samfélagsins. Hann sagði til dæmis að fyrirtækjum bæri að nýta hagnað til að byggja upp, það væri eðlilegt að þau tækju þátt í mikilvægum málum á sviði menningar og velferðar og að þeim bæri ekki síst að leggja fram fjármuni til að efla nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Ari segist telja að þetta þurfi að vera á frjálsum grundvelli. Þetta ráðist af því hvað einstök fyrirtæki vilji gera og þau sjái sér sem betur fer hag í því að hafa mikil og jákvæð samskipti við sitt samfélagslega umhverfi. Ari segist þó ekkert hafa við orð ráðherra að athuga í sjálfu sér. Forsætisráðherra nefndi sérstaklega að stærstu fjármálafyrirtæki landsins ættu að láta meira af hendi rakna. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka, segir bankana hafa tekið öflugan þátt í vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem hvað mest hafa vaxið undanfarið í íslensku atvinnulífi. Auk þess styrkja bankarnir allir ýmis velferðarmál, íþróttir, menntun og menningu og segir Sigurður að framlag KB banka eins nemi hundruðum milljóna króna á ári. Gera má ráð fyrir að hinir bankarnir séu ekki miklir eftirbátar þar. En þá er rétt að hafa í huga að bankarnir hafa hagnast um tugmilljarða króna á ári undanfarin ár. Sigurður segir að sjálfsagt megi alltaf gera betur, en tekur undir með Ara að það verði hvert fyrirtæki að ákveða fyrir sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×