Innlent

Gill sleppt á laugardag

Hæstiréttur fjallar ekki um kæru Pauls Gills vegna gæsluvarðhalds sem hann var úrskurðaður í því að honum var sleppt á laugardag. Gill var úrskurðaður í gæsluvarðhald á miðvikudag eftir að hann og tveir aðrir mótmælendur slettu grænlituðu skyri á ráðstefnugesti á Nordica-hóteli. Gill var úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag en hann var látinn laus klukkan hálf níu á laugardagsmorgunn. Hann hefur því ekki lengur lögvarða hagsmuni að því að Hæstiréttur fjalli um málið. Í stað gæsluvarðhaldsins hefur Gill verið settur í farbann til 1. júlí. Hann getur því ferðast um Ísland svo framlega að hann tilkynni sig hjá lögreglustjórum tvisvar á dag í eigin persónu. Jóhannes Albert Sævarsson, lögmaður Gills, segir Gill sætta sig við farbannið en hann er þó ósáttur við hversu ströng tilkynningaskyldan er, en samkvæmt henni þarf Gill að tilkynna sig á milli klukkan 10 og 11 og aftur á milli klukkan 6 og 7. Jóhannes hefur fyrir hönd Gills tjáð lögreglustjóranum í Reykjavík óánægju hans en ekki liggur fyrir hvort einhverjar breytingar fáist á tilkynningaskyldunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×