Innlent

Engin von á leyfi til hvalveiða

Íslenska hvalasendinefndin er nú þegar orðin vonlaus um að knýja fram leyfi til hvalveiða í atvinnuskyni á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Fundurinn hófst í Uslan í Suður-Kóreu í morgun. Frá árinu 1986 hefur Alþjóðahvalveiðiráðið lagt blátt bann við hvalveiðum en með tilkomu fjögurra þróunarríkja í ráðið glæddust vonir hvalveiðisinna um að ná 75 prósentum atkvæða sem knúið gæti fram breytingar á ríkjandi stefnu eða þær að takmarkaðar hvalveiðar í atvinnuskyni yrðu leyfðar. Þrátt fyrir að umræða um hvalveiðibannið hefjist ekki fyrr en á morgun er ljóst að þær væntingar eru að engu orðnar. Í morgun lögðu Japanar það meðal annars til að atkvæðagreiðslur innan ráðsins yrðu leynilegar með þeim rökum að það myndi koma í veg fyrir að umhverfisverndarsinnar beittu þær smáþjóðir þvingunum sem hlynntar eru hvalveiðum. Tillögunni var hafnað með 30 atkvæðum gegn 27, sem gefur klárlega til kynna ríkjandi valdahlutföll í ráðinu. Stefán Ásmundsson er formaður íslensku sendinefndarinnar á fundinum. Hann segir að Ísland og fleiri lönd hafi lagt mikið í að ná breiðri samstöðu og að þær umleitanir hafi aðallega farið fram í bakherbergjum síðustu daga. Ljóst megi þó vera að þær skili engu á yfirstandandi fundi og nú er horft til næsta árs. Stefán segir enn fremur að umræðan frá síðasta ársfundi hafi ekki skilað neinu og því reyni hann og fleiri að koma henni í réttan farveg sem gæti skilað sér í ákveðnu ferli sem gæti leitt til samkomulags um leyfi til hvalveiða á næsta ársfundi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×