Innlent

Ekki nauðsyn að afturkalla leyfi

Skipulagsstofnun telur ekki nauðsynlegt að afturkalla starfsleyfi vegna álversins í Reyðarfirði nema nýtt umhverfismat gerbylti forsendunum fyrir því. Skipulagsstofnun komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti nýtt umhverfismat fyrir álver í Reyðarfirði eftir að Norsk Hydro hætti við framkvæmdirnar og Alcoa tók við verkefninu. Umhverfisráðherra staðfesti þá niðurstöðu en Hæstiréttur ógilti hana og verður nýtt umhverfismat að fara fram. Alcoa verður því að vinna nýja matsskýrslu og verður tillaga að henni væntanlega lögð fram fljótlega. Umhverfisstofnun og Fjarðabyggð, sem gáfu út starfsleyfið, sjá ekki ástæðu til að fella það úr gildi þrátt fyrir dóm Hæstaréttar. Ásdís Hlökk Hökuldsdóttir, aðstoðarskipulagsstjóri Skipulagsstofnunar, segir stofnunina ganga út frá því að nýtt umhverfismat fyrir verksmiðjuna fari fram algjörlega óháð því að það liggi fyrir leyfi og þegar niðurstaða matsins liggi fyrir verði það tekið upp og endurskoðað eftir atvikum. Aðspurð hvort ekki beri að stöðva framkvæmdirnar í ljósi þess að nú verði að fara fram nýtt mat segist Ásdís ekki sjá að svo sé en hún telji að það sé fyrst og fremst leyfisveitendanna að taka afstöðu til þess. Ef einhverjir telji að svo sé þurfi þeir að beina máli sínu þangað. Ásdís segir starfsleyfið hafa verið veitt á grundvelli heilmikilla upplýsinga og það kunni að vera að það komi fram breyttar forsendur þegar ný matsskýrsla liggi fyrir en þá verði að endurskoða starfsleyfið. Það hafi komið fram að Umhverfisstofnun telji ekki tilefni til þess að fella leyfið úr gildi á þessari stundu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×