Innlent

Nærri 600 orður

Í embættistíð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á árabilinu 1996 til 2005 hafa íslenskar og erlendar konur hlotið 26,7 prósent af þeim fálkaorðum sem veittar hafa verið og karlmenn 73,3 prósent. Alls hafa 574 einstaklingar hlotið orðuna úr hendi forsetans, þar af 258 Íslendingar og 316 útlendingar. Ef aðeins er horft á þann hóp Íslendinga sem fengið hefur fálkaorðuna á þessu árabili hefur 97 þeirra verið nælt í barm kvenna, 37,6 prósentum. Ekki er hlutfallslegur prósentumunur á milli orðuveitinga til íslenskra kvenna frá byrjun tímabilsins til loka þess, íslenskar konur hafa fengið allt frá þriðjungi veittra fálkaorða á tímabilinu og upp í nálega helming þeirra. Hlutur íslenskra kvenna var hlutfallslega mestur í þessum efnum árið 2000 en þá fengu konur tólf af þeim 25 fálkaorðum sem veittar voru Íslendingum. Mest er ósamræmið milli kynjanna í orðuveitingum til erlendra ríkisborgara en 56 af þeim 317 orðum sem veittar hafa verið erlendum ríkisborgurum hafa farið til kvenna, eða 17,7 prósent. Mun færri erlendum ríkisborgurum er veitt fálkaorðan nú en í byrjun tímabilsins, en útlendingum er hvað helst veitt orðan í tengslum við opinberar heimsóknir. Sem dæmi um þetta má nefna að árið 1996 fengu 69 útlendingar fálkaorðuna en einungis 23 Íslendingar en það sem af er árinu 2005 hafa einungis fjórir útlendingar fengið orðuna en 29 Íslendingar. "Í þessum málum á að gæta jafnréttissjónarmiða eins og í öðrum málum," segir Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. "Það má kannski draga ályktun út frá þessu um hvernig staða jafnréttismála er í öðrum löndum. Sú staðreynd að konur fá 37 prósent þeirra fálkaorða sem veittar eru Íslendingum er bara þokkaleg, þó ég vildi að sjálfsögðu sjá enn frekari jöfnuð," segir Margrét.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×