Innlent

Forsætisráðuneytið mest

MYND/NFS
Frá því 1998 hefur forsætisráðuneytið fengið hlutfallslega hæsta fjárveitingu í aukafjárlögum miðað við önnur ráðuneyti. Að meðaltali er forsætisráðuneytinu úthlutað tuttugu prósentum hærri upphæð í aukafjárlögum en gert er ráð fyrir í fjárlögunum sjálfum. Að meðaltali fengu ráðuneytin öll á þessu tímabili tæplega sjö prósenta fjárlagaauka og er því hlutfall forsætisráðuneytisins langt umfram meðaltal. Ef fjármálaráðuneytið er ekki meðtalið, vegna þess að óreglulegir liðir á borð við lífeyrisskuldbindingar og vaxtagjöld koma þar inn í aukafjárlög, fær utanríkisráðuneytið hlutfallslega næsthæstu upphæðina úr aukafjárlögum, eða tæp tíu prósent að meðaltali. Eitt ráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, greiðir að jafnaði til baka í ríkissjóð í aukafjárlögum miðað við fjárlög, upphæð sem er um 0,3 prósent af fjárlögum ráðuneytisins. Fjárveitingar til sjávarútvegsráðuneytisins eru því að jafnaði ofreiknaðar miðað við aukafjárlög. Sjávarútvegsráðuneytið fer hins vegar að meðaltali 1,5 prósent fram úr aukafjárlögum á ríkisreikningi. Forsætisráðuneytið fer hins vegar hvað minnst fram úr aukafjárlögum þegar litið er til ríkisreiknings, eða um 0,6 prósent. Það ráðuneyti sem fór að jafnaði mest fram úr aukafjárlögum á tímabilinu, ef fjármálaráðuneytið er undanskilið af sömu ástæðum og áður, er iðnaðarráðuneytið, sem fer rúm átta prósent fram úr fjáraukalögum að jafnaði. Það er um fjórum prósentum hærra en viðmiðunarmark fjármálaráðuneytisins, en samkvæmt reglugerð um framkvæmd fjárlaga ber ráðuneytum að bregðast við ef útgjöld verða meiri en fjögur prósent umfram heimildir. Samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti voru einu ráðuneytin sem voru að jafnaði undir fjárheimildum á tímabilinu en að meðaltali fóru ráðuneytin 3,1 prósent fram úr fjárheimildum á ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×