Innlent

Fái að kvikmynda við Krýsuvík

Flest bendir til að Clint Eastwood og Steven Spielberg verði leyft að kvikmynda í Arnarfelli við Krýsuvík þrátt fyrir að umhverfisnefnd Hafnarfjarðar leggist gegn því. Byggingar- og skipulagsráð Hafnarfjarðar leggst ekki gegn kvikmyndagerðinni og það ræður. Til stendur að taka upp í tíu daga við Arnarfell. Svæðið þar þykir líkjast mjög svæði á eyjunni Iwo Jima í Japan þar sem ein frægasta stríðsljósmynd allra tíma var tekin þegar bandarískir hermenn reistu fána á eyjunni. Tökurnar fara að mestu leyti fram í norðausturhluta Arnarfells sem snýr í öfuga átt við kirkjuna í Krýsuvík. Þá verður tökuliðið með aðsetur við veginn. Umhverfisnefnd Hafnarfjarðar leggst alfarið gegn áformum um kvikmyndatökur á þessu svæði á þeim forsendum að landrask verði of mikið. Undir það sjónarmið tekur stjórn Reykjanesfólkvangs. Ákvörðun í málinu er hins vegar ekki í höndum þessara aðila heldur byggingar- og skipulagsráðs Hafnarfjarðar. Forsvarsmenn þess hafa nokkuð aðra sýn á málið. Ellý Erlingsdóttir formaður ráðsins, segir Landgræðslu, Umhverfisstofnun og Fornleifavernd ríkisins allar hafa gefið grænt ljós á að farið verði af stað með kvikmyndatökur. Skipulagsráð Hafnarfjarðar áformar að kalla alla sem hlut eiga að máli á sinn fund síðar í vikunni og fljótlega í kjölfarið verður svo tekin endanleg ákvörðun í málinu. Ellý segir tryggt að landinu verði ekki skilað í síðra ástandi en það er nú. Annað komi ekki til greina. Krýsuvík sé verðmætt svæði, ekki bara Hafnfirðingum heldur öllum sveitarfélögunum í kring, og ráðið vilji tryggja það að því sé sómi sýndur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×