Innlent

Ríkisendurskoðun hirtir ráðherra

Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun birti í gær um framkvæmd fjárlaga segir að forstöðumenn og ráðuneyti bregðist of seint við þegar ljóst sé að rekstur stofnana kosti meira en sem nemur fjárveitingum. Alvarlegir misbrestir eru á framkvæmd fjárlaga að mati Ríkisendurskoðunar og kemur það meðal annars fram í því að um 120 ríkisfyrirtæki og stofnanir af 520 fara meira en fjögur prósent fram úr heimildum, en við þau mörk skal grípa til sérstakra aðgerða samkvæmt reglugerð sem í gildi er. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að ráðuneyti og forstöðumenn grípi til aðgerða strax og ljóst sé að í óefni stefni og að mati stofnunarinnar kemur til greina að stöðva greiðslur til stofnana þar til gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana. Fram kemur í skýrslunni að stundum hafi forstöðumenn ríkisstofnana lagt til sparnaðaraðgerðir en ráðuneytin þá beðið þá um að staldra aðeins við. Þetta eigi sérstaklega við þegar um sé að ræða skerðingu á þjónustu sem geti verið erfitt að réttlæta í pólitískum skilningi. Af þessum sökum telji forstöðumenn sig því vera í góðri trú um að viðkomandi ráðuneyti sjái til þess að viðbótarfjárheimild fáist. Gangi það ekki eftir geti stofnunin á endanum setið uppi með óviðráðanlegan halla. "Veikleikar í fjármálastjórninni hafa leitt til þess að úgjaldaþróun fjölmargra fjárlagaliða er með þeim hætti að ekki verður við unað lengur," segir í skýrslunni. Vakin er athygli á að fjárlaganefnd hafi við afgreiðslu fjárlaga óskað eftir að ráðuneytin upplýstu um stöðu mála. "Nánast undatekningalaust hafa ráðuneytin ekki getað orðið við þessari beiðni," segir orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×