Innlent

Ágúst fagnar niðurstöðunni

Nýkjörinn varaformaður Samfylkingarinnar fagnar niðurstöðu framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar um að ekkert hafi verið málum blandið varðandi kosningar á landsfundi flokksins. Hörð gagnrýni kom fram á varaformannskosningarnar á landsfundinum.  Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem bauð sig fram til embættis varaformanns á landsfundinum, hafði uppi stór orð að kosningu lokinni. Hann sagði í fréttum Stöðvar 2 þann 22. maí að heilu bílfarmarnir af ungu fólki hefðu streymt á fundinn rétt fyrir kosninguna og því væri ekki skrýtið að úrslitin gætu orðið óvænt. Hann gekk svo langt að segja vinnubrögð mótframbjóðanda síns á mörkum þess að geta talist siðleg. Í úttekt framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar kemur hins vegar fram að framkvæmd kosninga á landsfundi flokksins hafa gengið mjög vel. Þar segir jafnframt að kosningar í öll embætti hafi verið löglegar og að betur hafi verið staðið að skilum á listum yfir kjörna landsfundarfulltrúa en oftast áður. Ágúst Ólafur Ágústsson, nýkjörinn varaformaður, segir þetta staðfestingu á því að ekkert hafi verið við vinnubrögð hans að athuga í aðdraganda kosninganna. Lúðvík vildi hins vegar ekkert tjá sig um málið í samtali við fréttastofu að öðru leyti en því að þetta væri skoðun framkvæmdastjórnar flokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×