Innlent

Fylgi Framsóknar fimm prósent

Fylgi Framsóknarflokksins í Reykjavík er minna en fimm prósent samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup frá því í byrjun mánaðarins. Í könnuninni mældist fylgi flokksins í sögulegu lágmarki eða átta og hálfu prósenti á landsvísu sem er minna en helmingur af kjörfylgi flokksins í síðustu alþingiskosningum. Fylgi flokksins í Reykjavík í sömu könnun mælist 4,6 prósent samkvæmt gögnum sem Fréttablaðið hefur fengið og unnin hafa verið úr könnuninni. Þetta er 6,9 prósenta minna fylgi en flokkurinn hafði í síðustu alþingiskosningum. Þá fékk flokkurinn um 11,5 prósent að meðaltali í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Þau 4,6 prósent sem flokkurinn fengi nú dygðu ekki til þess að flokkurinn fengi þingmann kjörinn en hefur nú þrjá þingmenn. Gallup mældi fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu og var svarhlutfall um 61 prósent. Þeir sem tóku afstöðu í Reykjavík voru 423 kjósendur. Sjálfstæðisflokkurinn fengi samkvæmt könnuninni 38,5 prósent, Samfylkingin 36,9 prósent, Vinstri-grænir 17,1 prósent og Frjálslyndi flokkurinn 2,7 prósent. Samfylking, Vinstri-grænir og Framsókn hafa boðið fram sameiginlega í Reykjavík og mælir könnunin ekki afstöðu kjósenda til þess samstarfs. Samningaviðræður R-listaflokkanna standa nú yfir og hafa framsóknarmenn lýst því yfir að þeir geri tilkall til tveggja fulltrúa á listann. Næsti fundur viðræðunefndar R-listaflokkanna er á mánudag. "Ég fer ekkert úr jafnvægi við þetta því ég hef oft séð það svartara. Reynslan sýnir okkur að við spjörum okkur í kosningum," segir Alfreð Þorsteinsson, oddviti flokksins í borgarstjórn. Gallup óskaði eftir því að tekið væri fram að gögnin, sem Fréttablaðið hefur, hefðu ekki verið afhent af fyrirtækinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×