Innlent

Brú milli fátækra og ríkra

Formaður og varaformenn BSRB afhentu utanríkisráðherra yfirlýsingu í gær á baráttudegi sem kenndur er við hvíta bandið. Þar hvetur stjórn BSRB stjórnvöld og almenning til þess að taka virkan þátt í því að brúa þá gjá sem er milli ríkra og snauðra í heiminum. Ögmundur Jónasson formaður BSRB sagði að það væri ein forsenda þess að fátækt og örbirgð yrði upprætt að komið yrði á fót stjórnskipulagi sem laust væri við spillingu. "Forsenda þess að fjármunir í almannaþágu nýtist sem skyldi er opið og upplýst lýðræðissamfélag." Stjórn BSRB telur jafnframt mikilvægt að fulltrúar Íslands í alþjóðastofnunum og alþjóðasamstarfi beiti sér af alefli til stuðnings fátækum þjóðum. Davíð Oddson utanríkisráðherra tók við yfirlýsingunni í gær og kvaðst myndu kynna hana á ríkisstjórnarfundi næstkomandi þriðjudag. "Við höfum séð að þeim fjármunum sem þjóðir heims verja til þessa verkefnis getur verið vel varið, sérstaklega þegar því er fylgt eftir að þeim sé raunverulega varið til sjálfshjálpar en ekki einvörðungu til að friðþægja gefandann eins og einstaka sinnum er."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×