Erlent

Björgunaraðgerðir í London

Björgunarmenn reyna nú sitt ítrasta til að bjarga líkum þeirra sem fórust í hryðjuverkaárásunum á London, en fjöldi þeirra liggur í löskuðum lestargöngum langt undir yfirborði jarðar. Staðfest hefur verið að fjörutíu og níu voru myrtir í árásinni en vitað er að rauntalan er hærri þar sem líkin í göngunum eru ekki talin með. Tuttugu lík eru til dæmis í göngunum við Russal Square. Áttatíu liggja enn á sjúkrahúsi og berjast tugir þeirra fyrir lífi sínu, eftir því sem fram kemur hjá SKY-fréttastofunni. Fjöldi borgarbúa leitar ástvina sinna sem ekki hafa skilað sér eða látið frá sér heyra frá því á fimmtudagsmorgun. Yfirvöld segja ekki hægt að greina frá nöfnum þeirra sem ráðnir voru af dögum enn sem komið er, og er talið að það geti dregist fram í næstu viku. Hætta er talin á frekari árásun í Lundúnum þar sem tilræðismennirnir leika enn lausum hala. Hryðjuverkasérfræðingar benda á að þeir sem gerður hryðjuverkaárásirnar í Madríd hafi unnið að frekari árásum þegar lögreglan hafði uppi á þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×