Innlent

Össur vill R-lista, sama hvað

"Ég er bjartsýnn á að það náist samstaða um Reykjavíkurlista eins og staðan er núna. Ef það fer svo að aðrir flokkar en Samfylkingin ákveða að taka ekki þátt í því þá tel ég að Samfylkingin ætti samt sem áður að bjóða fram með óháðum og þeim sem vilja undir merkjum Reykjavíkurlistans. Ég tel að undir öllum kringumstæðum eigi Samfylkingin að bjóða fram sem Reykjavíkurlisti, þó að annar eða báðir samstarfsflokkana vilji ekki vera með í slíkum lista," segir Össur Skarphéðinsson. Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir hafa undanfarnar vikur setið við samningaborðið og rætt framtíðarsamstarf um Reykjavíkurlista og er enn alls óvíst hvort flokkarnir nái saman um áframhaldandi samstarf. Svo virðist sem helsta bitbein flokkanna sé fjöldi fulltrúa, Samfylkingin vill minnst fjóra fulltrúa en báðir hinir flokkarnir segja jafna aðkomu flokkanna vera grundvallarskilyrði samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Aðspurður hvaða aðferðir honum hugnist um val á fulltrúum Samfylkingar ef svo færi að allir flokkarnir færu aftur saman fram segir Össur: "Ég teldi það rétt af Samfylkingunni að hafa opið prófkjör um þá fulltrúa sem hún fengi með Reykjavíkurlistanum. Ég tel að það eigi að vera mögulegt fyrir óháða frambjóðendur að bjóða sig fram í slíku prófkjöri." Jóhanna Eyjólfsdóttir formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík segir það ljóst að Samfylkingin muni alltaf fara einhvers konar prófkjörsleið og þvertekur ekki fyrir að óháðir frambjóðendur gætu komið að því prófkjöri. Hún vill ekki tjá sig um framtíðarhorfur R-listans enda virðast viðræður flokkanna á viðkvæmu stigi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins skýrist það fljótlega eftir verslunarmannahelgi hvað verður í framhaldinu. Ekki náðist í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×