Innlent

Upplýsir ekki skoðun á ættleiðingu

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vill ekki upplýsa hvaða skoðun hann hafi á því að samkynhneigðir fengju að ættleiða börn þó svo að málið heyri undir hans ráðuneyti. Í fréttum Stöðvar tvö í gær sagði Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði, fordóma Sólveigar Pétursdóttur í garð samkynhneigðra og barnauppeldis þeirra hafa verið þess valdandi að hún vildi ekki leyfa eða samþykkja frumættleiðingu samkynhneigðra. Von er á ríkisstjórnarfrumvarpi í haust sem að öllum líkindum mun byggjast á mati nefndar sem fjallaði um réttarstöðu samkynhneigðra. Það felur í sér aukin réttindi eins og að skrá sig í óvígða sambúð og ættleiða börn innanlands. Nefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni þegar kom að ættleiðingum barna frá útlöndum og hvort gera ætti lesbíum kleift að njóta aðstoðar við tæknifrjóvgun. Ekki náðist í Sólveigu vegna málsins. Hins vegar náðist í Björn Bjarnason, núverandi dómsmálaráðherra, sem hafði þó fátt um málið að segja. Hann sagði að það yrði skoðað en hann stjórnaði ekki ferðinni og gæti því lítið tjáð sig. Björn vildi engu svara þegar hann var spurður hver hans persónulega skoðun á málinu væri. „Ég vil ekki upplýsa þig um það sem mér finnst,“ sagði hann síðan við fréttamann. Þá bætti hann við að honum fyndist ómaklegt að ráðast svona gegn Sólveigu Pétursdóttur eins og Baldur gerði. Lauk síðan símtalinu. Erfitt reynist að fá fram afstöðu ráðamanna um málið og finnst eflaust mörgum undarlegt að stjórnmálamenn geti ekki sagt hug sinn, til þess þurfi heila nefnd. Árni Magnússon, félagsmálaráðherra og jafnréttisráðherra, vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu í dag en mun á morgun halda ræðu á Hinsegin dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×