Innlent

Sveitarfélögum fækkað um helming

Nefnd sem fjallar um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur lagt fram tillögur sem fela í sér sameiningu 62 sveitarfélaga í landinu í sexán. Kosið verður um tillögurnar 8. október næstkomandi. Sveitarfélög á landinu eru nú 101, en að teknu tilliti til þess að tólf sveitarfélög til viðbótar hafa samþykkt sameiningu verða þau 92 í kjölfar sveitarstjórnarkosningannna næsta vor. Víðtækust er tillagan um sameiningu allra sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu frá Siglufirði til Grenivíkur. Alls er ráðgert að sameina þar níu sveitarfélög í eitt með liðlega 23 þúsund íbúa. Þá er einnig um víðtæka sameiningu að ræða á Austfjörðum en allir firðirnir frá Mjóafirði í norðri að Breiðdalsvík í suðri verða eitt sveitarfélag verði sameiningartillaga samþykkt. Á fjórtánda þúsund íbúar verða í sama sveitarfélaginu verði samþykkt tillaga um sameiningu Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Garðs. Nærri 10.800 íbúar verða í einu sveitarfélagi í Ölfusi og Flóa verði samþykkt tillaga um sameiningu Selfoss, Hveragerðis, Þorlákshafnar og nágrannabyggða. Tillaga er gerð um að sameina Akrahrepp sveitarfélaginu Skagafirði, en hreppurinn er sá eini sem stendur utan sameinaðs héraðsins. Liðlega 200 manns búa í Akrahreppi. Sameining sveitarfélaga hefur oft farið út um þúfur vegna andstöðu í fámennustu sveitarfélögunum. Skemmst er að minnast sameiningar alls Fljótsdalshéraðs utan Fljótsdalshrepps og andstöðu í Skorradalshreppi við sameiningaráform. Fámennustu hrepparnir í sameiningartillögunum nú eru Mjóifjörður með 38 íbúa, Helgafellssveit með 47, Broddaneshreppur með 53 og Árneshreppur með 57 íbúa. Þeir sem geta ekki kosið um sameiningu sveitarfélaga heima í héraði 8. október næstkomandi geta greitt atkvæði utan kjörfundar hjá sýslumannsembættum frá og með laugardeginum 13. ágúst. Einnig er unnt að greiða atkvæði í íslenskum sendiráðum eða öðrum stöðum erlendis samkvæmt nánari ákvörðun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×