Innlent

R-lista viðræður í strand

Nefnd, sem rætt hefur samstarf R-listaflokkana á næsta kjörtímabili, ákvað á fundi í gær að slíta frekari viðræðum og fela flokksfélögunum að taka endanlega ákvörðun um framtíð samstarfsins. "Samninganefndirnar hafa ekki komist að niðurstöðu og þess vegna fer málið til flokkanna," sagði Páll Halldórsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, að loknum síðasta fundi nefndarinnar í gær. Í yfirlýsingu eftir fundinn í gær segja fulltrúar Framsóknarflokksins að þeir hafi verið tilbúnir að teygja sig langt til þess að ná samstöðu. Eftir fundinn lýsti Matthías Imsland, fulltrúi Framsóknarmanna, vonbrigðum með niðurstöðuna í nefndinni. "Við ætlum að kynna kjördæmasambandinu stöðu málsins á fundi á næstunni, þar á meðal tillögu sem Samfylkingin hefur sett fram um sameiginlegt prófkjör." Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, sagði eftir fundinn að viðræðurnar hefðu verið býsna þreytandi á síðustu metrunum og lyktir málsins væru svo sem engin vonbrigði. "Málið verður rætt á félagsfundi. Ég veit ekki hvernig við ættum að komast lengra. Það er spennandi og ögrandi verkefni fyrir Vinstri græna í Reykjavík að bjóða fram til borgarstjórnar. Við göngum hiklaust til verks og full tilhlökkunar ef það verður niðurstaða félagsfundarins. Ef fundurinn vill frekari viðræður tökum við því," segir Svandís. Vænta má þess að tillaga Samfylkingarinnar að lausn málsins verði rædd í flokksfélögunum á næstu dögum. Hún felur í sér að haldið verði prófkjör meðal stuðningsmanna R-listans. Hver flokkur tilnefni fimm til átta fulltrúa og þátttakendum í prófkjörinu verði raðað eftir stafrófsröð á lista. Kjósendur merki við nöfn með tölustöfum frá einum til átta og sá sem flest atkvæði fær í fyrsta sæti verði borgarstjóraefni listans. Tillagan gerir ráð fyrir jafnri dreifingu fulltrúa allra flokka í efstu sæti listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×