Innlent

Fáheyrð ósvífni útvegsmanna

"Útgerðarmenn sýna fáheyrða ósvífni með því að krefjast þess að dómsúrskurður færi þeim beinan eignarrétt yfir fiskinum í sjónum," segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar. Útgerðarmaður í Vestmannaeyjum lýsti yfir í gær að hann íhugaði að höfða mál gegn sjávarútvegsráðherra vegna úthlutunar byggðakvóta í síðustu viku, en Vestmannaeyingar fengu engan kvóta. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir einnig vilja innan sambandsins til þess að kanna fyrir dómstólum hvort úthlutun byggðakvóta stenst eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Össur segir útvegsmenn með þessu að kasta stríðshanskanum. "Ef farið verður fyrir dómstóla eru þeir að ganga þeir lengra en áður að halda því fram að þeir hafi beint eignarhald yfir kvótanum," segir Össur. "Lögin segja hins vegar fortaklaust að svo sé ekki." Össur segir lagabreytingar þurfi með ef niðurstaðan verði önnur. "Þetta færir mér enn frekar heim sanninn um nauðsyn þess að fest verði rækilega í stjórnarskrá að auðlindin í hafinu sé sameiginleg þjóðareign," segir Össur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×