Innlent

Samkynhneigð pör öðlast sama rétt

Samkynhneigð pör munu njóta nákvæmlega sömu réttinda og gagnkynhneigð, ef frumvarp sem er í smíðum í forsætisráðuneytinu verður samþykkt á þingi í haust. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun og er samstaða um að ganga skuli alla leið og leyfa bæði ættleiðingar samkynhneigðra erlendis frá og tæknifrjóvgun lesbískra para. Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra skilaði af sér skýrslu í haust. Hún var sammála um nokkur atriði sem ættu heima í lagafrumvarpi sem bæta skyldi réttarstöðu samkynhneigðra. Til dæmis að samkynhneigðum pörum ætti að leyfast að frumættleiða íslensk börn. Og að lögum skyldi breytt þannig að samkynhneigð pör gætu fengið óvígða sambúð skráða hjá Hagstofu Íslands með sömu réttaráhrifum og gagnkynhneigð pör. Einnig að þeim lagaákvæðum sem veita sambúð karls og konu sérstök réttaráhrif yrði breytt svo þau næðu einnig til samkynhneigðra para í sömu stöðu. Nefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til þess hvort heimila ætti ættleiðingar samkynhneigðra á erlendum börnum og hvort lesbískum pörum ætti að vera heimilt að gangast undir tæknifrjóvgun hérlendis. Samkvæmt minnisblaði verða bæði atriðin tekin inn í frumvarpið.   Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði að hans vilji væri að samkynhneigð pör nytu sama réttar á við gagnkynhneigða og að ekki ætti að mismuna aðilum eftir kynhneigð, trúarbrögðum eða litarhætti. Hann telur vera kominn tíma til að taka á þessum málum með þeim hætti og hann sagði gott starf í gangi hjá ríkistjórninni í langan tíma og að málin væru í ákveðinni þróun. Hann sagði málið vera viðkvæmt en að mati ríkistjórnarinnar er kominn tími til að taka af skarið. Halldór segir að almenn samstaða hafi verið í ríkisstjórn um málið og að samningu frumvarpsins verði hraðað svo að öllu óbreyttu verður það lagt fram á þingi í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×