Innlent

Samfylking brýtur eigin siðareglur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar telur enga hagsmunaárekstra felast í því að hún sitji í stjórn Seðlabankans. Siðareglur, sem flokkurinn setur þingmönnum, banna þeim að sitja í stjórnum banka, stofnana og fyrirtækja þar sem hætta er á slíku. Með siðareglum sem Samfylkingin setti árið 1999 er flokkurinn eina stjórnmálaaflið sem sett hefur reglur sem leggja slíkar kvaðir á þingmenn. Í pistili á vefsíðu Framsóknarmanna, Tímanum, er þó fullyrt að þessar reglur séu þverbrotnarr. Jón Gunnarsson sitji til dæmis í stjórn Sparisjóðsins í Keflavík, Einar Már Sigurðarson í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins og Helgi Hjörvar í stjórn Landsvirkjunar og Faxaflóahafna. Að sögn varaformanns Þinflokks Samfylkingarinnar, Kristjáns L. Möller, þá taka siðareglurnar ekki til þessara þriggja því þeir hafi verið tilnefndir til stjórnarsetunnar af sveitarfélögum, ekki þingflokknum. Þeir telji sig ekki getað gengið það langt að banna þingmönnum að taka að sér verkefni fyrir sveitarfélög, þótt sú staða kæmi upp að það þætti æskilegra að menn létu af stjórnarsetu. Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, á einnig sæti í stjórn Seðlabankans, en þegar hún tók sæti var hún ekki í þingflokki Samfylkingarinnar og aðeins varaformaður flokksins. Nú er hún hinsvegar sest á þing og orðin formaður flokksins. Framsóknarmenn telja ekki lengur um það deilt að siðareglurnar nái yfir hana. Reyndar segja þeir siðareglur Samfylkingarinnar einhvern hreinræktaðasta spuna sem um getur í íslensku stjórnmálalífi, það er nafnið tómt. Ingibjörg Sólrún sagði í samtali við fréttastofuna í dag, að í siðareglunum væri talað um viðskipta- og fjárfestingabanka. Seðlabankinn sé hvorugt, og því erfitt að sjá hvaða hagsmunaárekstrar gætu orðið. Hún sagði ennfremur að þingflokkurinn muni fjalla um þetta mál, og ákveða hvort hún sitji áfram í stjórn Seðlabankans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×