Innlent

Hafa safnað 10 þús. undirskriftum

Rúmlega 10 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun á stjórnvöld um að lækka álögur á bifreiðaeldsneyti. Undirskriftirnar verða afhentar stjórnvöldum í næstu viku og framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda er bjartsýnn á að stjórnvöld taki mark á bifreiðaeigendum. Fjármálaráðherra gerði grein fyrir því í löngu máli í vikunni af hverju hann synjaði beiðni Félags íslenskra bifreiðaeigenda um að lækka álögur á eldsneyti. Á meðal raka hans var að raunverð á bensíni miðað við launavísitölu væri lægra nú en oft áður. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, gefur lítið fyrir þessi rök. Hann segir furðulegt að menn noti þá vísitölu sem henti þeim á hverji tíma. Ljóst sé að miðað við verðlagsvísitölu sé bensín í hæstu hæðum og hafi nánast aldrei verið hærra. Fyrir því finni neytendur. Þá vísar fjármálaráðherra í greinargerð sinni því á bug að ríkissjóður fái 500 milljóna króna tekjuauka á þessu ári vegna virðisaukaskatta af hærra bensínverði þar sem fólk muni keyra minna og eins draga úr annarri virðisaukaskattsskyldri neyslu. Runólfur bendir á að bíllinn sé eitt það síðasta sem fólk skeri niður við sig og ljóst sé að skattar sem leggist með svo miklum þunga á einkabílinn komi það verst niður á þeim sem minnst hafi. Þar sé ekkert um að ræða að gera eitthvað annað, koma þurfi barni á leikskóla, komast í vinnu o.s.frv. FÍB stendur nú fyrir undirskriftasöfnun á heimasíðu félagsin á Netinu þar sem skorað er á stjórnvöld að lækka álögur á bifreiðaeldsneyti. Runólfur segir að nú þegar hafi 10 þúsund manns skráð nafn sitt á listann og að hann verði afhentur stjórnvöldum í næstu viku. Hann bendir á að þetta sé fólkið í landinu að láta skoðun sína í ljós. Hann hafi trú á því að þegar menn skoði málið ofan í grunninn geti undirskriftasöfnunin haft áhrif. Runólfur segir enn fremur að í erindinu komi fram að árið 1999 hafi verið farið með vörugjald á bensíni úr prósentu í fast gjald. Það hafi tekist eftir langa baráttu FÍB fyrir breytingu á þeirri skattagningu. Fyrstu svörin þá hafi verið neikvæð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×