Innlent

Vilja reisa byggð í Leirvogstungu

Mosfellsbær og fyrirtækið Leirvogstunga ehf. undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu 400 íbúða í landi Leirvogstungu í Mosfellsbæ. Upppbygging hverfisins verður sveitarfélaginu að kostnaðarlausu þar sem framkvæmdaaðili tekur að sér lagningu vegar, brúargerð og fjármagnar byggingu skóla og leikskóla á svæðinu, en þetta mun vera nýjung í uppbyggingu á Íslandi. Í tilkynningu frá bæjarfélaginu kemur fram að gert sé ráð fyrir að áætlana-, skipulags- og byggingarkostnaður, ásamt vegagerð og fleira sem tengist framkvæmdinni, muni nema ríflega tveimur milljörðum króna. Stefnt er að því að framkvæmdin hefjist í vor og er gert ráð fyrir að uppbyggingin taki fjögur ár. Leirvogstunga er nálægt bæjarmiðju Mosfellsbæjar. Þær 400 íbúðir sem ráðgert er að byggja munu skiptast í einbýlishús, parhús og raðhús. Eigendur og framkvæmdaaðilar eru hjónin Bjarni Sv. Guðmundsson og Katrín Sif Ragnarsdóttir sem reka fyrirtækið Leirvogstungu ehf. en fjölskylda Bjarna hefur átt jörðina Leirvogstungu í sex ættliði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×