Innlent

Nánari tengsl Færeyja og Íslands

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Jóhannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, undirrituðu í gær samning um að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði Íslands og Færeyja. Samningurinn, sem undirritaður var í Hoyvik, kveður á um viðskiptafrelsi með vörur, þjónustu og fjárfestingar. Samningurinn nær meðal annars til viðskipta með landbúnaðarafurðir. Samkvæmt samningnum skulu íslenskir ríkisborgarar og íslensk fyrirtæki njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar og færeysk fyrirtæki. Jafnframt skulu Færeyingar og færeysk fyrirtæki njóta sömu réttinda hér á landi og íslenskir ríkisborgarar og íslensk fyrirtæki. Samkvæmt færeyska útvarpinu snertir samningurinn ekki hagsmuni landanna tveggja í sjávarútvegi. Samningurinn er talinn sá stærsti og viðamesti sem Færeyingar hafa gert til þessa við erlent ríki. Davíð Oddsson er í opinberri heimsókn í Færeyjum. Hann og fylgdarlið hans sátu ráðstefnu í Færeyjum í gær um viðskipti og efnahagsmál en dagurinn í dag verður helgaður menningarmálum. Heimsókninni lýkur í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×