Innlent

Fagnar afstöðu í flugvallarmálinu

Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir það stórtíðindi að Sjálfstæðismenn hafi tekið afdráttarlausa afstöðu til flugvallarins í Vatnsmýrinni. Hann fagnar viðsnúningi Sjálfstæðismanna, sem hafi dregið lappirnar í málinu hingað til. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur nú lýst því yfir að hann vilji Reykjavíkurflugvöll burt úr Vatnsmýrinni og hann vill að íbúða- og atvinnubyggð rísi þar í staðinn. Aldrei áður hefur forystumaður innan Sjálfstæðisflokksins tekið svo afdráttalausa afstöðu gegn flugvellinum, en Vilhjálmur sækist eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir viðsnúning Sjálfstæðismanna í flugvallarmálinu athyglisverðan, og hann sé í rökréttu framhaldi af því að meirihlutinn í borgarstjórn hafi beint málinu í þann farveg að leysa það, með hagsmuni Reykjavíkur, innanlandsflugsins og landsbyggðarinnar að leiðarljósi. Dagur segir skipulagsráð hafa verið í ágætu sambandi við samgönguráðuneytið um málið og hann benti á að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hefðu lengi dregið lappirnar og hann sagði það því mjög mikil tíðindi að Vilhjálmur væri búinn að taka afstöðu. Einnig benti hann á að Sjálfstæðismenn vildu heldur flýta þessu en ekki og það mun því alls ekki standa á Reykjavíkurlistanum að vinna hratt og örugglega í þessu þannig að tekið sé tillit til allra sjónarmiða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×