Innlent

Svipað og í olíukreppunni

Verð á eldsneyti hefur nú náð svipuðum hæðum og í olíukreppunni á áttunda áratugnum, eftir verðhækkun í gær, sem er rakin til áhrifa frá fellibylnum Katrínu. Útgerðin tapar um fjórum milljörðum á ári vegna hækkana á gasolíu sem hefur hækkað um fjörutíu og átta prósent á einu ári. Skattar nema tæpum 66 krónum af hverjum seldum bensínlítra í sjálfsafgreiðslu sem kostar 117. Álagningin er há en það er hún einnig í nágrannalöndum okkar. Hátt verð á bensíni hér hefur því einkum ráðist af fjarlægð við markaði, dreifbýli og fákeppni. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir skattar hér á landi séu ekki ólíkir því sem þekkist í Norður-Evrópu en benda megi á það að Íslendingar beri sig þá saman við þá sem séu með hæstu skatta á eldsneyti sem þekkist. Nágrannar Íslendinga í Skandinavíu hafi allt aðra möguleika varðandi almenningssamgöngur þannig að valkostirnir séu fleiri. Tæplega fjórtán þúsund undirskriftir söfnuðust í undirskriftasöfnum félagsins þar sem skorað er á fjármálaráðherra að lækka skatta á eldsneyti. Hann fékk listana afhenta í gær. Runólfur segir ráðherra hafa tekið við listunum en hafi engin vilyrði gefið um viðbrögð. Það valdi vonbrigðum. FÍB hafi fengið svar frá ráðuneytinu 18. desember þar sem öllum inngripum hafi verið hafnað en síðan hafi fellibylurinn Katrín riðið yfir þannig að ástandið sé allt öðruvísi nú en um miðjan ágúst. Það sé sjálfsögð krafa að kjörnir fulltrúar landsins taki við sér og það sé óþolandi að menn geti stungið höfðinu í sandinn og sagt að það sé ekkert hægt að gera. Flotaolía sem er ekki skattlögð hækkaði um eina og hálfa krónu á lítrann í gær og hefur að meðaltali hækkað um 46 prósent milli ára og tap útgerðarinnar vegna þessa er um fjórir milljarðar á ári. Flotaolían á heimsmarkaði hefur hins vegar hækkað um 88 prósent og útlitið því ískyggilegt. Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, segir að menn verði að vona að markaðurinn jafni sig aftur en verði þessi þróun áfram muni það íþyngja sjávarútveginum allverulega. Hann megi ekki við miklu sem stendur vegna þess að gengi krónunnar hafi hækkað mjög mikið undanfarin misseri og staðan almennt að versna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×