Innlent

Efast um áhuga sveitarfélaga

Ólafur F. Magnússon, borgafulltrúi Frjálslyndra, kynnti í borgarstjórn í gær tillögu um að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að fela Reykjavíkurborg að leita eftir viðræðum við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um sameiningu sveitarfélaganna. Tillagan var ekki samþykkt, en þess í stað var bókun Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra samþykkt um að tillagan verði kynnt fyrir stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Steinunn Valdís og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, voru sammála um að það ætti ekki að vera hlutverk Reykjavíkurborgar að standa fyrir slíkri umræðu, en sjálfsagt væri að ræða við önnur sveitarfélög sem hefðu áhuga á því að sameinast Reykjavík. Þá efuðust þau um að önnur sveitarfélög hefðu áhuga á að sameinast Reykjavíkurborg. Ólafur lét bóka að hann taldi tillögu borgarstjóra ekki til þess fallna að fá fram þá umræðu sem þurfi til að flýta nauðsynlegri sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×