Innlent

Davíð verður seðlabankastjóri

Davíð Odddsson tilkynnti fyrir stundu á blaðamannafundi í Valhöll að hann hygðist ekki gefa kost á sér í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi. Þá tilkynnti hann einnig að hann hygðist láta af embætti utanríkisráðherra 27. september og taka við sem formaður bankastjórnar Seðlabankans af Birgi Ísleifi Gunnarssyni. Þær breytingar verða á ríkisstjórninni við brotthvarf Davíðs að Geir H. Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, verður utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen fer úr sjávarútvegsráðuneytinu í fjármálaráðuneytið og Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður tekur við embættti sjávarútvegsráðherra. Davíð sagði á blaðamannafundinum að hann hefði tekið ákvörðunina um að hætta fyrir skömmu og hann vonaðist til að hafa rýmri tíma til skrifta og annarra tómstunda eftir að hann færir sig yfir í Seðlabankann. Davíð Oddsson varð borgarfulltrúi árið 1974, þá 26 ára, og síðan borgarstjóri árið 1982, aðeins 34 ára gamall. Hann lét af störfum sem borgarstjóri árið 1991 og settist beint í stól forsætisráðherra. Það ár hafði hann sigur gegn Þorsteini Pálssyni í kjöri til formanns Sjálfstæðisflokksins. Davíð var forsætisráðherra í þrettán ár samfellt, lengst allra Íslendinga, en færði sig um set yfir í utanríkisráðuneytið í september í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×