Innlent

Virði ákvörðun Davíðs

"Davíð Oddsson á mjög farsælan feril í stjórmálum. Hann hefur verið í forystu íslenskra stjórnmála um langt skeið og reynst bæði traustur og úrræðagóður," segir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra um þá ákvörðun Davíðs að segja skilið við stjórnmálin. Halldór og Davíð hafa leitt ríkisstjórn í um tíu ár. "Það hefur verið mjög gott og farsælt samstarf. Við höfum náð samkomulagi um mál og allt staðið eins og stafur á bók. Við höfum aldrei þurft að setja neitt á blað um það. Hann hefur tekið þessa ákvörðun að vandlega íhuguðu máli og ég skil hana og virði." Davíð og Halldór gerðu með sér sérstakan sáttmála um samstarf sem ætla má að sé ekki lengur í gildi milli Halldórs og Geirs H.Haarde, sem brátt tekur stöðu Davíðs í stjórnarsamstarfinu. "Við Geir höfum ákveðið að eiga náið samstarf. Ég kvíði því í engu og er afar ánægður með að Geir tekur að sér utanríkismálin sem ég tel hann hafa sérstaka hæfileika til." Halldór segir nýja skipan ráðherra af hálfu Sjálfstæðisflokksins hafa verið ákveðna með sinni vitund og lýsir ánægju með breytingarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×