Innlent

Spenna fyrir kosningarnar í Noregi

Mikil spenna ríkir fyrir þingkosningar í Noregi sem fara fram á mánudaginn. Nýjar skoðanakannanir benda til þess að ríkisstjórn Kjells Magne Bondeviks bæti við sig fylgi og nú virðist fylgi hennar og bandalags stjórnaranstöðuflokkanna nærri hnífjafnt. Leiðtogar bæði stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarinnar eyða öllu púðri sínu í að vinna óákveðna kjósendur á sitt band á síðustu metrunum fyrir kosningarnar. Könnun dagblaðsins Vart Land í dag bendir til þess að stjórnarandstaðan hafi örlítið meira fylgi en samkvæmt könnun TV2 virðist ríkisstjórnin ætla að halda velli. Vart má á milli sjá og flestar kannanir undanfarið benda til þess að ríkisstjórnin fái á bilinu áttatíu og tvo til áttatíu og átta þingmenn en hún þarf áttatíu og fimm til að halda velli. Fyrir aðeins örfáum vikum var allt útlit fyrir að ríkisstjórnin myndi falla en nú virðist hún aftur vera farin að sækja á eftir að ný lífskjaraskýrsla Sameinuðu þjóðanna kom út þar sem Noregur var í fyrsta sæti. En þó svo að ríkisstjórnin haldi velli er ekki öruggt að samstarfið haldi því Carl Hagen, formaður Framfaraflokksins, segir að það komi ekki til greina að Bondevik verði forsætisráðherra næstu fjögur árin. Bondevik er ekki sáttur við þessi ummæli Hagens og segir ástæðulaust að búa til ágreining áður en úrslit kosninganna liggja fyrir. Allt gæti þetta á endanum orðið vatn á myllu Jens Stoltenbergs, helsta leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna, sem margir spá að verði næsti forsætisráðherra Noregs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×