Innlent

Mikilvægt að koma á jafnvægi

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs telur brýnt að gripið verði til samræmdra aðgerða til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og átelur ríkisstjórnina fyrir andvaraleysi. Þetta er meðal þess sem fram kom á flokksráðsfundi vinstri grænna dagana 9. til 10. september. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir að stefna stjórnvalda birtist núna í vaxandi örðugleikum í atvinnulífinu og menn séu kvíðnir fyrir framhaldinu. "Gengi krónunnar er afar óhagstætt og vaxtamunurinn við útlönd veldur vandræðum í útflutningsgreinunum. Það þarf að koma á jafnvægi í efnahagslífinu og þótt ráðamenn séu duglegir við að kenna öðrum um jafnvægisleysið þá liggur vandinn fyrst og fremst hjá ríkisstjórninni," segir Steingrímur. Til að stemma stigu við jafnvægisleysinu vilja vinstri grænir að skattalækkunum verði slegið á frest og stóriðjustefna ríkisins verði lögð á hilluna. Þá telja þeir mikilvægt að laun ýmissa undirstöðustétta hækki til að stemma stigu við óróleika á vinnumarkaði og flótta úr vissum starfstéttum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×