21 rúða brotin í grunnskóla

Sautján ára piltur braut 21 rúðu í Grunnskólanum í Borgarnesi. Guðbergur Guðmundsson, varðstjóri lögreglunnar í Borgarnesi, segir ákveðin ummerki í kringum skólann hafa gefið vísbendingar um hver hafi verið að verki. Fjórir jafnaldrar hafi fylgst með því er pilturinn braut rúðurnar. Hann hafi ekki náð að brjóta rúðurnar í gegn og því hafi skólastarfið ekki raskast. Guðbergur segir hópinn þann sama og rændi keilum, skiltum og bunkum af Fréttablaðinu aðfaranótt sunnudags. Pilturinn verði kærður fyrir skemmdarverkin.