Innlent

Launahækkanir óæskilegar

"Ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn koma með trúverðuga áætlun varðandi hagstjórn og hvernig verðbólgu verði náð niður ætti verkalýðshreyfingin að sitja hjá og ekki gera kröfur um launahækkanir við endurskoðun á kjarasamningum," segir Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum sem gerðir voru í fyrra hefur verkalýðshreyfingin rétt á endurskoðun samninga í nóvember vegna þess hve verðbólgan mælist hátt. "Það versta sem launafólk getur fengið er aukin verðbólga," segir Tryggvi. "Öll kaupmáttaraukning setur meiri þrýsting á verðlag. Ef laun hækka verður þrýstingurinn enn meiri og kemur fram sem verðbólga og víxlverkun launa og verðlags myndi einfaldlega komast á. Launþegar nytu kaupmáttaraukningar í skamman tíma en síðan myndi verðlagið éta hana upp. Það er afleit leið að fara og í raun ófær," segir Tryggvi. Spurður til hvaða aðgerða sé hægt að grípa til svo koma megi í veg fyrir að víxlverkun launa og verðlags komist á segir hann að nauðsynlegt væri að koma á þríhliða samningi. "Ég tel að ríkið verði að koma mjög sterkt að samningum og draga eins mikið úr ríkisútgjöldum og mögulegt er. Það er ljóst að Seðlabankinn ræður tæpast við þetta einn," segir hann. Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist gera sér fulla grein fyrir því að launahækkanir séu hvati til verðbólgu. "Það er hins vegar ljóst að forsendur kjarasamninga eru brostnar og það þurfa að koma til bætur bæði vegna verðbólgu og launahækkunum í öðrum geirum. Við ætlum ekki að sitja eftir óbætt hjá garði," segir hann. Hann segir það alveg koma til greina að semja um annað en krónutölur og prósentur. "Við þurfum að fá inn leiðréttingar og það eru margar leiðir til þess. Verðbólgan hefur verið að éta upp kauphækkanir okkar," segir hann. Tryggvi Þór er spurður hvernig hægt sé að bæta kjör launafólks án þess hækkanir verði í prósentum eða krónutölu. "Það má til dæmis gera með því að lækka skatta þótt auðvitað sé það ekki fær leið núna því þá er verið að gefa ennþá meira í og auka kaupmáttinn þannig. Einnig er hægt að auka lífeyrisréttindi, eins og gert hefur verið, sem kemur út sem sparnaður," segir Tryggvi. sda@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×