Innlent

Með nauðgunarlyf í plasthylkjum

Tveir 25 ára gamlir menn voru dæmdir í mánaðarfangelsi og til að sæta upptöku á rúmum fimmtán grömmum af amfetamíni, tæpu grammi af kókaíni og 38 millilítrum af smjörsýru. Dómurinn, sem var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands, var skilorðsbundinn í þrjú ár, en mennirnir greiða að auki rúmar 270 þúsund krónur í málskostnað. Lögreglan á Hvolsvelli hafði afskipti af mönnunum þar sem þeir voru á ferð í bíl við Hellu að kvöldi föstudagsins 2. júlí í fyrra. Efnin fundust í buxnavösum annars mannsins við leit lögreglu. Fyrir dómi mótmæltu mennirnir því að efnin hefðu "að verulegu leyti verið ætluð til sölu í ágóðaskyni", en amfetamínið var í nítján litlum plastpokum og smjörsýran í fjórum plasthylkjum. Smjörsýra veldur dái og minnisleysi líkt og svæfingarlyf. Sérfræðingur í eiturefnafræði bar fyrir dómi að efnið væri notað sem "nauðgunarlyf" en einnig hefði borist blóðsýni til rannsóknar úr einstaklingum sem sjálfir notuðu lyfið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×