Innlent

Konur leggi niður vinnu

Íslenskar konur er hvattar til að leggja niður vinnu þann 24. október næstkomandi, en þá verða liðin 30 ár frá kvennafrídeginum árið 1975. Rósa Erlingsdóttir, verkefnisstjóri hins nýja kvennafrídags, segir að konur verði ekki hvattar til að leggja niður störf með sama hætti gert hafi verið fyrir 30 árum heldur sé því beint til kvenna að leggja niður störf frá klukkan 14.08, en reiknað hafi verið út að þá hafi þær unnið fyrir launum sínum ef litið sé til munar á atvinnutekjum karla og kvenna. Staðan sé enn þá þannig í dag að konur séu aðeins með 64,15 prósent af tekjum karla. Forsvarsmenn kvennafrídagsins hafi spurt sig út frá þessum upplýsingum hvenær konur væru búnar að vinna fyrir sínum launum miðað við átta klukkustunda vinnudag þannig að þær væru með sambærileg laun og karlmenn. Út hafi komið að þær þyrftu að vinna í rúmar fimm klukkustundir og þannig hafi tímasetningin fengist. Þá sé miðað við að konur hefji störf klukkan níu. Rósa segir að kröfuganga verði sama dag klukkan þrjú og baráttudagskrá í miðbæ Reykjavíkur frá klukkan fjögur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×