Innlent

Kannast ekki við óeðlilegar tafir

Árni Magnússon félagsmálaráðherra kannast ekki við að óeðlilegar tafir hafi orðið á vinnu nefndar sem hann skipaði og falið var að kanna hugsanlega lagasetningu á starfsemi starfsmannaleiga á íslenskum vinnumarkaði. Ingvar Sverrisson, lögfræðingur ASÍ, gagnrýndi nýverið hversu lengi nefndin hefði starfað án þess að skila niðurstöðu. Ingvar, sem jafnframt er einn þriggja nefndarmanna í nefnd félagsmálaráðherra, gagnrýndi harðlega hversu langan tíma nefndin hefði starfað án þess að niðurstaða hefði fengist hvort og þá hvernig eigi að standa að lagasetningu um starfsemi starfsmannaleiga hér á landi. Nefndin var skipuð af Árna Magnússyni stuttu eftir kosningar árið 2003 en í henni sitja, auk Ingvars, fulltrúi ráðuneytis og Samtaka atvinnulífsins. Ingvar sagði í viðtali við fréttastofuna á fimmtudag að tillögur ASÍ hefðu komið fram fyrir tveimur árum og verið óbreyttar síðan. Hann undraðist því hvers vegna ekki hefði tekist að ljúka störfum nefndarinnar á meðan starfsmannaleigur hefðu valdið verkalýðshreyfingu og skattayfirvöldum miklum vandræðum þar sem reglur skorti.  Félagsmálaráðherra segir tafir á vinnu nefndarinnar eiga sér skýringar í því að nú nýverið hefði Rannóknastofa í vinnumarkaðs- og kynjafræðum við Viðkiptaháskólann á Bifröst unnið að skýrslu um starfsmannaleigur á íslenskum vinnumarkaði fyrir nefndina. Ráðherra segir að nefndin muni því væntanlega skila tillögum von bráðar. Hann segir vel koma til greina að sett verði lög um starfsmannaleigur, ef nefndin komist að þeirri niðurstöðu. Aðspurður hvort ekki hefði verið betra að þær reglur hefðu verið settar fyrr, og þá hvort þannig hefði ekki mátt koma í veg fyrir þær deilur sem slík starfsemi hefði valdið í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og víðar, sagði Árni slíkt tal einföldun á mun flóknara máli. Starfsmannaleigur séu nýjar af nálinni hér á landi og víðar í heiminum sé verið að kanna slíka starfsemi og lagaumhverfi hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×