Innlent

Uppsagnir vegna sparnaðar

Mynd/Vísir
Vestmannaeyjabær skuldar fimm milljarða króna. Bæjaryfirvöld ætla að spara 65 milljónir króna árlega með því að leggja niður stofnanir og segja upp sex til tíu starfsmönnum. Vestmannaeyingar skulda fimm milljarða króna og hafa fengið ábendingu frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga um að taka á skuldastöðunni. Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri sagði á Talstöðinni í morgun að bærinn hefði verið rekinn með tapi í 15 ár. Stór hluti af skuldunum væri vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga, upp á um 1,4 milljarða króna, og félagslega íbúðakerfisins, eða sem nemur 1,1 milljörðum króna. Samstæða Vestmannaeyjabæjar veltir tveimur milljörðum á ári. Bergur segir bæjaryfirvöld vilja sýna ábyrgð og taka á hlutunum. Það hafi því verið farið í uppstokkun á stjórnkerfi bæjarins, fólki fækkað í ráðum og nefndum á vegum bæjarins og þóknun þeirra lækkuð, hvort heldur bæjarfulltrúa eða annarra starfsmanna. Þá hafi verið farið kerfisbundið í gegnum allar stofnanir og ákvörðun tekin um hvaða stofnanir bærinn vilji reka áfram og hverjar verði lagðar niður. Bæjaryfirvöld telji sig nú geta sparað um 65 milljónir árlega og það eigi að gera. Aðspurður hvort segja ætti fólki upp sagði Bergur að svo gæti farið. Það yrðu þó ekki margir, milli sex og tíu manns, en hjá Vestmannaeyjabæ störfuðu 327 manns. Hlutfallið væri því ekki hátt. Bergur sagði stóran hluta að þessum aðgerðum beinast að millistjórnendum en ekki yrði farið á þá sem minnst hefðu launin. Ekki yrði hreyft við þeim sem hefðu minna en 250 þúsund krónur á mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×