Innlent

Ekki sameinuð með lögum

Árni segir það ekki koma til greina að hann beiti sér fyrir lagasetningu sem knýr sveitarfélög til að sameinast ef íbúar þeirra hafna sameiningartillögum. Kosið verður um sameiningu í sextíu og einu sveitarfélagi á laugardag. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, sagði fyrr í dag að félagsmálaráðherra hefði á fundi um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði í gær, hótað sameiningu með valdi ef sveitarfélögin yrðu ekki sameinuð í íbúakosningum. Árni segir þetta af og frá. Hann hafi bent á að líklega yrði næsta skref í umræðunni að breyta lögum svo lágmarksíbúafjöldi yrði hærri en hann er nú. Það væri þó nokkuð sem hann ætlaði ekki að flytja tillögu að og raunar ætti Björgvin frekar að líta til félaga sinna í Samfylkingunni í þessum efnum. "Það hefur raunar verið tillaga Samfylkingar í þinginu ár eftir ár að breyta sveitarstjórnalögum þannig að íbúalágmarkið yrði hækkað úr fimmtíu í þúsund. Þannig að Björgvin hefði nú kannski betur velt sér hinum megin fram úr rúminu og séð hverja hann hitti fyrir þar," segir Árni og vísar til frumvarpa sem félagar Björgvins úr Samfylkingunni hafa flutt síðustu ár. Árni hafnaði líka þeim orðum Björgvins að sameiningartillögurnar væru unnar að ofan og lítið tillit tekið til óska heimamanna. Hann segir fullt samráð hafa verið haft við sveitarstjórnarmenn. Hlustað hafi verið á þeirra hugmyndir og tillögur og endanlegar sameiningartillögur samdar í framhaldi af því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×