Innlent

Skulda afsökunarbeiðni

"Spurningin er: er hann nógu stór til að biðjast afsökunar," spurði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um Halldór Ásgrímssonar forsætisráðherra þegar hann krafðist  þess að forystumenn stjórnarflokkanna bæðu þjóðina afsökunar á að hafa lýst stuðningi við innrásina í Írak. Steingrímur gagnrýndi hvernig blekkingum hefði verið beitt til að afla stuðnings við innrásina í Írak. Í ræðu sinni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra rifjaði hann upp að Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefði sagt innrásina í Írak ólöglega, og að Colin Powell. fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefði beðist afsökunar á ræðu sinni í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem hann mælti fyrir nauðsyninni á innrás í Írak. Steingrímur sagði ljóst úr þessu að Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, myndi ekki biðja þingheim afsökunar á gjörðum sínum úr ræðustóli Alþingis. Hann sagði að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra væri hins vegar enn í stöðu til þess. "Spurningin er: er hann nógu stór til að biðjast afsökunar." Steingrímur gagnrýndi stjórnina einnig fyrir slaka stjórn efnahagsmála og kvað réttast að Halldór Ásgrímsson segði af sér stjórn efnahagsmála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×