Innlent

Kosið um 23 þúsund manna byggð

Í sameiningarkosningunum á laugardag taka íbúar við Eyjafjörð afstöðu til þess hvort tímabært sé að sameina öll sveitarfélögin á svæðinu, að undanskildum Grímseyjarhreppi. Þar með yrði til ríflega 23 þúsund manna samfélag við Eyjarfjörð þar sem um 70 prósent íbúanna búa á Akureyri. Stærsta sameiningarkosningin á laugardaginn, með tilliti til fjölda sveitarfélaga, snýst um sameiningu níu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Haldnir voru kynningarfundir í öllum sveitarfélögunum níu og var fundarsókn allgóð á flestum stöðunum. Síðasti kynningarfundurinn var haldinn á Akureyri í gærkvöld og var fundarsókn mjög dræm, en einungis 60 aftæplega 17 þúsund íbúum bæjarins mættu á fundinn. Samkvæmt viðhorfskönnun rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri frá því í febrúar síðastliðnum nýtur hugmyndin um eitt sveitarfélag við Eyjafjörð meira fylgis á meðal íbúa þéttbýlisstaðanna fjögurra en í hinum fimm sveitarfélögunum þar sem byggð er dreifðari. Andstaðan við stórsameiningu í Eyjafirði virðist vera hvað mest í Eyjafjarðarsveit og Grýtubakkahreppi, en á Grenivík sem er í Grýtubakkahreppi er sagt að þeir sem hlynntir séu sameiningu fari með veggjum. Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, segir að íbúar þar óttist mest að svæðið verði jaðarbyggð í þessu stóra sveitarfélagi. Dæmin hafi sýnt það að jaðarbyggðir líði fyrir stöðu sína og þjónusta hafi skerst þar. Grýtubakkahreppur eigi heilmiklar eignir í aflaheimildum og þær hafi verið nýttar til þess að byggja upp atvinnulífið á staðnum. Guðný segir enn fremur að dæmin hafi sýnt það að sveitarfélög hafi ekki legið á sínum aflaheimildum heldur yfirleitt selt þær. Það óttist íbúar á staðnum mest. Guðný segir að Grenvíkingar leiti mikið til Akureyrar nú þegar og henni finnist mjög gott að hafa bæinn í nágrenninu en bæjarfélögin þurfi ekkert endilega að ganga í eina sæng. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er misjöfn en verst er staðan í Ólafsfirðir, Dalvíkurbyggð, Siglufirði og Hörgárbyggð. Erfitt er hins vegar að meta til fulls fjárhagsstöðu sveitarfélaganna þar sem bókfærðar eignir kunna að vera aðrar en markaðsverð þeirra. Slagorð Akureyrarbæjar er: Öll lífsins gæði. Aðspurður, ef það sé satt og rétt, hvort Akureyringar hafi eftir einhverju að slægjast í kosningunum segir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, að hann telji að það sé eftir töluverðu að slægjast fyrir alla íbúa svæðisins, að standa saman sem Eyfirðingar út á við og inn á við og halda málum sínum saman fram sem ein heild fremur en að vera með níu ólíkar, uppbrotnar skoðanir. Sófanías Antonsson, íbúi á Dalvík, segist aðspurður sáttur við að sameinast Akureyringum og telur að helsti ávinningur Dalvíkinga af sameiningunni verði á sviði fjármála, en fjárhagur Dalvíkur hefur verið erfiður. Ásrún Aðalsteinsdóttir, íbúi á Akureyri, segist ætla að hafna sameiningunni þar sem hún telji að litlu sveitarfélögin eigi ekki samleið með Akureyri. Hólmgeir Valdimarsson, íbúi í Eyjafjarðarsveit, segist aðspurður afar hlynntur sameiningu vegna þess að sameinaðir muni Eyfirðingar búa til enn öflugra sveitarfélag heldur en verði nokkurn tíma hægt að áorka í Eyjafjarðarsveit. Árið 1993 var gerð tilraun til stórsameiningar við Eyjafjörð. Þá voru Siglfirðingar ekki inni í myndinni. Í þeim kosningum samþykktu íbúar á Akureyri, í Arnarhreppi og Hrísey sameiningu en íbúar annarra sveitarfélaga við Eyjafjörð voru ekki tilbúnir að sameinast fyrir tólf árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×