Innlent

Haldið í gömlu klisjuna

MYND/Vísir
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, gefur lítið fyrir orð Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra um að hann hefði haft aðra afstöðu til innrásarinnar í Írak, hefðu menn vitað fyrir að þar væri engin gjöreyðingarvopn að finna. Forsætisráðherra sagði í viðtali í Blaðinu að ráðamenn hefðu treyst upplýsingum frá Bretum og Bandaríkjamönnum sem hefðu síðan reynst rangar. Steingrímur J. Sigfússon, krafðist þess í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á þriðjudagskvöld að Halldór bæðist afsökunar á stuðningi stjórnvalda við innrásina í Írak. Steingrímur segir að þó í orðum forsætisráðherra votti fyrir viðurkenningu á að stjórnvöld hafi gert mistök, felist engin afsökunarbeiðni í þeim og raunar helst á Halldóri að skilja að stjórnvöld hefðu hvort eð er stutt innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak. "Með mjög góðum vilja má kannski segja að votti þarna fyrir smá eftirsjá eða iðrun," segir Steingrímur. "Þarna er á hinn bóginn líka komið með gömlu klisjuna, sem ég kalla bandamannarökin, að af því Bandaríkjamenn og Bretar hafi verið svo mikilvægir samherjar á sviði utanríkismála hefðum við hvort eð er alltaf fylgt þeim að málum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×